Harpa Árnadóttir: Djúpalogn - Hverfisgallerí

19 October - 23 November 2019
Works
Overview

Djúpalogn

Að skrifa sig inn í teikninguna?

Harpa Árnadóttir leggur af stað í ferð inn í innra landslag, þar sem fjörðurinn, sköpunargáfan og skrifin bregðast hvert við öðru. Teikningin og vatnsliturinn fanga andrúmsloft, veðurfarsbreytingar, birtu og logn fjarðarins. Hið stóra í hinu smáa og hið smáa í hinu stóra. Minningin um staði er eitt af leiðarstefjum hennar, áþreifanleg og gagnsæ.

Verk Hörpu fljóta á mörkum óhlutbundins og hlutbundins myndmáls, þau snúast um að fanga tilbrigði náttúru og huga í teikningu og málverki. Sýningin samanstendur af blýantsteikningum og málverkum; litlum sem stórum, unnum með hafkalki, litadufti, vatnslitum, pappír og striga. „Ég teikna og mála mig inn í fjörðinn og mála fjörðinn með firðinum sjálfum.“Með því á Harpa við að hún hafi árum saman notað hafkalk í verkin sín úr Arnarfirði.

Það er sjálfsævisögulegur tónn í sýningunni sem mótast af hugleiðingum um bernskuna. Við undirbúning sýningarinnar í sumar uppgötvaði Harpa vatnslitamynd eftir Ásgrím Jónsson (1876-1958), sem henni var sýnd í húsi ömmu hennar og afa sem hún fæddist í. Myndin var máluð á Bíldudal, þegar hann bjó og starfaði í þorpinu ungur maður í upphafi ferils síns. Þetta er lítil vatnslitamynd af Bíldudal og Arnarfirði. Hörpu fannst það undarleg tilviljun og snerta streng í hjartanu að hugsa til vatnslitamálarans Ásgríms og horfa með eigin augum út á sama fjörðinn svona löngu seinna. Hér er handaband yfir heila öld. Harpa fékk málverkið lánað og það er hluti sýningarinnar. Þá fylgir einnig bókverk sem varð til á Bíldudal í sumar, með örsögum og teikningum úr Arnarfirði.

Teikningarnar eru eins konar ástand í logni, eins og  að horfa í úða eftir regnið og finna hvernig fjöllin birtast og hverfa ofan í djúpan fjörð; djúpalogn. Harpa segir sjálf: „Ég er heilluð af því að hægt sé að skapa myndlist og ástand með næstum því engu þar sem augað fangar birtubrigði og leitar jafnvægis.“

Sköpunarferlið er sjálfrátt, lýrískt og lágstemmt um lognið, kyrrðina, ljósið, víðáttuna og hinn hverfula sjóndeildarhring. Það er viss þráhyggja fyrir sjóndeildarhringnum og hvernig haf eða land mætir himni. „Mér finnst ég mála myndir í ljóðum og með skrifunum bý ég til myndir, með málverkinu og teikningunum skapa ég ástand sem eru eins konar ljóð.“

Heba Helgadóttir

 

Að skrifa sig inn í teikninguna?

Inn að hjartarótum, inn í djúpan fjörð bernskunnar þar sem logn er – svartalogn – og fjörðurinn verður

djúpgrænbláflöskugrænn.

Fjöllin ofandottin og ógnarhá. Alltaf ógn – alltaf logn.

Litir teikna sig ei, en mála sig sífellt.

Lognið – lognið á kannski engan lit?

Hef horft á fjörðinn frá Kaldabakka, úti við frá elsta húsi plássins.

Hef hlustað, og horft, á hvali blása úti á firði – mínum firði, sem ég er fædd í.

Hafaldan er lygn hér, logn og friðsæld.

Hingað fljóta hvalir og sletta upp sporðum úti á firði svo vekur furðu.

Horfði á þá tímunum saman í sumar blása sínum bólstrum, hverfa og birtast á ný með svartbláhvítum sporðaköstum.

Veröldin verður eilíft ný í Arnarfirði.

Er ég var ung málaði ég fjallið Langanes er siglir inn, hverfur og birtist á ný – sífellt nýtt handan fjarðar.

Bjartir litir og birtubrigði – málað á meðan amma leit eftir frumburðinum, sjaldan hefur móðurhjartað málað í jafn miklu jafnvægi og þá.

Augað leitar ætíð hafs og himins í snertingu – sjónarrönd er það sennilega kallað.

Teikningar mínar eru ástand – og augnablik.

Harpa Árnadóttir

//

Writing your way into the drawing?

Harpa Árnadóttir embarks on a journey through her inner landscape, where the fjord, the creativity and the writing react to each other. The drawing, the water colours, capture an atmosphere, change in the weather, the light and calm of the fjord. The large in the small and the small in the large. Memory of a place is one of her leitmotifs; tangible and transparent.

Harpa’s work floats on the border of figurative and abstract imagery, it revolves around capturing the nuances in nature and the mind in paintings and drawings. The exhibition consists of pencil drawings and paintings, big and small, created with ocean calcium, colour powder, water colours, paper and canvas.“I draw and paint my way to the fjord, and paint the fjord using the fjord itself.” By this, Harpa means that for years she has been using ocean calcium from Arnarfjörður in her work.

The exhibition has an autobiographic atmosphere, shaped by speculations on the childhood. In preparing for the exhibition this summer, Harpa discovered a water colour painting by Ásgrímur Jónsson (1876-1958) in the house of her grandparents, where she was born. The image was of Bíldudalur, from the time when Ásgrímur lived and worked in the village as a young man at the start of his career. It is a small, beautiful water colour painting of Bíldudalur and Arnarfjörður in good weather, the ocean is calm and gleaming. Harpa found it a strange coincidence and it touched her deep within to think of the painter Ásgrímur, and then look upon the same fjord with her own eyes so much later. This is a handshake across a whole century. Harpa borrowed the painting and it is a part of the exhibition. There is also a book work which was created in Bíldudalur this summer and contains micro-stories and drawings from Arnarfjörður.

The drawings feel like a state of calm, like looking in the drizzle after the rain and feeling the mountains appear and disappear into the deep fjord. Harpa says: “I am mesmerised by how you can create art and situations out of almost nothing when the eye captures the nuances of light and seeks a balance.”

The creation process is voluntary, lyrical and low-key; it revolves around the calm, the stillness, the light, the wide expanse and the ephemeral horizon. There is a certain obsession with the horizon and how sea or land meets the sky. “I feel like I am painting pictures in my poetry and creating images with my writings; with the paintings and drawings I create a situation which is a kind of poetry.”

Heba Helgadóttir

Drawing your way into the drawing?

To the bottom of your heart, into the deep fjord of your childhood where there is calm – the blackest kind – and the fjord becomes
deepgreenbluebottlegreen.
The mountains overwhelming and terrifically tall. Always the threat – always the quiet.
Colours don’t draw themselves, but they constantly sketch themselves.
The calm – perhaps the calm doesn’t have a colour?
Have been looking out onto the fjord from Kaldibakki, the oldest house in the village.

I have listened, and watched, whales blowing on the fjord – my fjord, where I was born.
The waves are gentle, it is calm and peaceful.
Whales float in and lobtail their flukes on the sea to everyone’s amazement.
This summer, I watched them blow their puffs for ages, disappear and reappear with blackbluewhite lobtailing.
In Arnarfjörður, the world is eternally new.

When I was young, I painted the mountain Langanes which sails in, disappears and reappears – always new, across the water.
Bright colours and nuances of light – painted while the grandmother looked after the first-born, seldom has the mother’s heart been as much at ease while painting.
The eye always searches for the touching of the sky and the sea – the skyline.
My drawings are a situation – and a moment.

Installation Views