Hrafnkell Sigurðsson: Endurafbygging / Recondestruction - Hverfisgallerí
Recondestruction / Endurafbygging
Allan janúar 2021 dvaldi ég á Siglufirði við skriftir. Vann í matsalnum á Hótel Siglunesi og bjó í íbúð marokkó-kokksins góða. Allar fjórar vikurnar var sama veðrið, norðan stórrhríð eða skafrenningur. Nýji kraftgallinn kom sér vel. Á hverjum morgni gekk ég upp í hlíðargötur með hundinn Lukku og niður á torgið, stakk mér síðan inn í bakaríið og snæddi morgunverð, rúnnstykki, safa og kaffi.
Mér fannst ég staddur í öðrum heimi, heimi sem tilheyrði vart Íslandi. Sigló var svo miklu norðar á hnettinum en restin af landinu. Jafnvel Akureyri virtist vera þriggja tíma flug í burtu. Á köflum lokaðist enda fjörðurinn, hvorki var fært fyrir skriðurnar vestur í Skagafjörð eða um Múlann austur í Eyjafjörð. Aðeins varð komist að og frá staðnum með öflugum skipum. Stundum sátu áhafnarmeðlimir á Múlaberginu með mér í morgunkaffinu og sögðu já, helvítis norðanskít vera úti fyrir firðinum, á meðan úti hvein í ljósastaurunum og skaflarnir söfnuðust upp í garðshornum og húsasundum. Á hverjum morgni þurfti maður að moka sig út og á hverju kvöldi þurfti maður að moka sig aftur inn. Þetta var alveg nýtt líf fyrir mér. Snjóskóflan var orðið sama þarfaþing og tannburstinn.
Morgun einn seint í janúar sátu tveir starfsmenn skíðasvæðisins í bakaríinu og snæddu morgunverð. Ég kannaðist við þá úr skíðaferðum undanfarinna ára og við ræddum veðrið, færðina og horfurnar. Akkúrat í þeim orðum varð viðburður úti í myrkrinu og muggunni sem kom í ljós um leið og tvímenningarnir mættu upp á skíðasvæðið hálftíma síðar: Snjóflóð hafði splundrað skíðaskála Siglfirðinga. Brak úr honum og geymslugámum sem stóðu þar hjá lá dreift um stórt svæði. “Þeir voru nú bara heppnir að koma við hérna í bakaríinu hjá okkur þennan morguninn í stað þess að fara beint upp á svæði eins og þeir gera jafnan,” sagði konan í bakaríinu daginn eftir.
Enn einn ganginn hafði orðið snjóflóð á Siglufirði. Ekki í fyrsta og ekki í síðasta sinn. Þrátt fyrir að bærinn sjálfur sé nú varinn af flóðagildrum og varnargörðum fann náttúran sér leið til að valda tjóni á eigum bæjarbúa.
En þar sem flestir sjá tjón sér listamaður tækifæri. Skömmu eftir flóðið var Hrafnkell Sigurðsson mættur í Herhúsið og þaðan upp á svæði. Á augabragði hafði brakið raðað sér upp af einstökun listrænu jafnvægi. Náttúran hafði brotið líf okkar niður í eindir en listamaðurinn hafði raðað þeim aftur saman. Úr urðu einskonar vörður, ef ekki súlur, minnisvarðar um þann brothætta veruleika sem lífið er, margbrotin minnismerki sem voru þó eins og frummyndir sprengingar: Stóri hvellur í frumbernsku, áður en hlutirnir þeyttust út í rýmið.
Hvað er listamaðurinn að segja okkur hér? Þegar veruleiki okkar hefur verið tekinn í sundur, flokkaður og greindur, er þetta eina leiðin til að setja hann aftur saman.
Við erum minnt á gamlar sögur af radíóamatörum sem gátu tekið transistor-útvarpið í sundur en ekki sett það saman aftur. Útkoman var splundrað útvarpstæki sem aðeins gat náð einni stöð: Dularfyllstu útsendingu heimsins, þeirri sem kemur úr kjarna lífsins.
Á líkan hátt hefur Hrafnkell Sigurðsson raðað veruleika okkar upp aftur, eftir að náttúran tók hann í sundur: Svona lítur tilveran út þegar hún hefur verið afbyggð og sett saman á ný. Það er endurafbygging. Redeconstruction.
-Hallgrímur Helgason